Hraðferð til Dresden

Á dagsskránni var einfaldlega hraðferð í suðurátt, markmiðið að ná til Dresden fyrir myrkur. Reyndar gerðum við smá hlé á þeysireiðinni í Berlín, en þar við snæddum miðdegisverð með systursonum Guðmundar, þeim Andra og Sölva og kærustu þess síðarnefnda. Hittum þá á matsölu í námunda við heimili þeirra og áttum með þeim skemmtilega stund. Þarna við hliðina er mikill skáli sem hýsir hluta af samgöngusafni Berlínar þar sem m.a. má sjá margar kynslóðir sporvagna, allt frá vögnum, sporvögnum sem sé, sem dregnir voru af hestum, til vagna sem voru í notkun vel fram yfir síðustu öld. Líka farartæki sem voru í „einkaeigu“ nafnkunnra, t.d. Range Rover Honeckers, en sá var lengi æðsti strumpur í DDR (Austur-Þýskalandi). Til að reyna að fela kapítalískar tilhneigingar forsetans sáluga (ekki gott til afspurnar að aðalritari öreiganna í þýska alþýðulýðveldinu aki um á breskum lúxusvagni), þá var Range Rover merkið fjarlægt af bílnum sem og aðrar einkennismerkingar. Einnig var bíllinn lengdur að aftan og huggulegu útliti þessa eðalbíls rústað eins ósmekklega og hægt var.

Veiðibíll æðsta yfirvalds í DDR

Berlín kvödd og hjólunum stýrt áfram suður Brandenburgarland og ekki slegið af fyrr en við vorum komnir inn í höfuðborg Saxlands, Dresden. Fórum við þarna meira og minna sömu leið og við ókum með Hringfaranum 2014, enduðum á sama hóteli, Motel One, fórum á sama veitingastaðinn til að snæða um kvöldið og ég held svei mér þá að ég hafi fengið mér sama réttinn af seðlinum. Stundum er gott að treysta bara á það sem maður þekkir og hefur gefist vel. Gerðum matnum svo góð skil, að þörf var á heillöngum göngutúr, bara til að hjálpa meltingunni og koma matnum til að sjatna áður en lagst var í hvílu.   Eknir 470 km.