Íranski herinn

Frá Khorramabad lendum við strax í fjöllum, stórskemmtilegum fjallvegum í kjörhita, sem skreið rólega úr 18 gráðum upp í um 25 og var mikil tilbreyting frá nýliðnum dögum. Við ökum alllengi dags um hálendi, svona í kringum 1.800 m, um landbúnaðarhéruð mikil, hæðir og ásar plægðir, þarna yrkja menn jörðina allt upp undir grjóturðir fjallanna, svo langt sem augað eygir. Afar skemmtilegt var að aka um þessar slóðir, ef frá eru taldir hnökrar á malbikinu sem virðast vera fastur passi á vegunum hvar sem maður fer.

Þessi vakti athygli á herstöðinni sem hann stóð framan við

Áðum stundarkorn undir vegg til að taka mynd af gömlum skriðdreka sem stillt var upp framan við innkeyrslu að rammgirtu hersvæði. Fljótlega komu til okkar nokkrir hermenn og spurðu um okkar för. Voru þeir hinir kumpánlegustu, en aðeins einn úr hópnum talaði ensku, sem hann sagðist hafa lært með því að horfa á kvikmyndir.  Þeir dáðust að hjólunum og vildu að sjálfsögðu allir fá af sér myndir við gripina. Piltana langaði til að bjóða okkur inn fyrir upp á hressingu, en yfirmaður þeirra sem með þeim var, sagði það því miður ekki hægt skv. reglum herstöðvarinnar og virtist öllum þykja það leitt.

Þarna náðum við góðum tengslum við íranska herinn

Sá enskumælandi upplýsti okkur um að þessi litli hópur sem við vorum að spjalla við, var blanda þjóðerna, arabar, kúrdar, persar og eitthvað nefndi hann fleira. Við erum núna sem sé að aka um Kúrdistan hérað Írans. Sjálfir vorum við að vonum ánægðir með að vera komnir í þetta gott vinfengi við íranska herinn og fá að upplifa þessa elskulegu hlið hans.

Eftir þessi skemmtilegu kynni héldum við áfram og sáum að meðfram veginum á margra km svæði voru svona vel girt athafnasvæði hersins. Þægilegur akstur til Sanandaj þar sem við komum okkur í gistingu eftir temmilega dagleið, eina 308 km.

Um kvöldið fórum við enn að ráði gestamóttökunnar, á „ítalskan“ veitingastað og fengum leigubíl til að skutla okkur. Hann sleppti okkur úr við pizzustað, en ekki þar sem við ætluðum. Með hjálp ungrar stúlku á förnum vegi komumst við með öðrum bíl á réttan áfangastað og fengum góðan snæðing. Meðan við sitjum til borðs, birtist ekki leigubílstjórinn sem skildi okkur eftir á vitlausum stað, ákveðinn í að bæta okkur mistökin og aka okkur frítt á hótelið aftur, sem við tókum ekki í mál, því farið kostar 100 krónur ísl. en við tvöföldum ævinlega uppsett verð, við mikla gleði bílstjóranna. Fengum okkur m.a. pízzu sem ekki var kláruð og bað bílstjórinn um að fá  afganginn af henni með sér heim, sem var auðsótt mál.

Á næsta borði sat falleg gömul kona með dóttur og barnabarni, ungri stúlku. Hér er greinilega ekki mikið um ferðamenn, svo flestir inni á matölunni ýmist gjóuðu til okkar augunum eða horfðu á okkur og brostu. Gamla konan brosti og ég brosti og litla stúlka sem sneri baki í mig sneri sér að mér og brosti, svo ég vinkaði henni og hún á móti. Þessi þrenning yfirgaf matsöluna rétt á undan okkur eftir að hafa kvatt og brosað og litla daman rétti mér höndina til að kveðja. Þegar við komum út standa þessar þrjár kynslóðir enn utan við staðinn og var þá ekki annað hægt en að fá mynd af þeim, til að varðveita minninguna um þessi notalegu orðlausu kynni af fallegu fólki. Eknir 308 km.

Með þremur kynslólum af fallegu fólki