Frá Sanandaj var málið núna bara að koma sér til Urmia, sem gekk að mestu vandræðalaust þrátt fyrir leiðinda strekking á köflum. Enn ökum við um hálendisvegi í um 1.600 til 1.800 m hæð, eru þetta landbúnaðarhéruð sem fyrr og náttúran gleður augað.
Eins og venjulega stoppum við endrum og sinnum til að fá okkur kaffi, en nú bregður svo við að góða espresso kaffið sem ganga mátti að vísu, jafnvel á aumustu bensínstöðvum, er með öllu horfið í þessum sveitum, einungis te í boði eða sums staðar Neskaffi. Kaffiþyrstir rennum við upp að húsi þar sem fjölmenni var og við héldum vera kaffihús. Sáum við ekki betur úr fjarska en þarna væri einhver gleði, því fjöldi kvenna stóð prúðbúinn í hálfhring í garði við húsið og hugðum við báðir að þarna væri söngskemmtun eða annað slíkt í gangi.
Þegar við hins vegar stöðvum við húsið sjáum við að uppáklædda kvenfólkið voru allt brúður í fullri stærð eða gínur. Þar sem enginn á svæðinu talaði ensku, fengum við engan botn í þessa samkomu, en ekkert var þarna kaffið.
Það merkilega gerist í ratara radíóvirkjans, að tækið afvegaleiðir okkur inn á breiðan veg, rétt eins og höggormurinn Evu forðum og erum við nú heillum horfnir um stund. Andstætt framvindu gömlu sögunnar, þá sér tækið að sér um síðir og kemur okkur aftur inn á hinn mjóa veg sem leiðir til …. Urmia. Fengum við út úr þessum vegvillum velkomna aukakílómetra inn á hjólin, eða þannig, komumst þó á skikkanlegum tíma á leiðarenda. Tæknimaðurinn mikli á hjóli eitt, lá síðan heillengi yfir því hvernig þetta hafi getað skeð, en mér vitanlega hefur hann ekki komist að neinni skynsamlegri niðurstöðu í því máli enn sem komið er. Eknir 449 km