Krakow

Stuttur akstur í ágætis veðri, ekkert sérstaklega hlýtt þó, byrjuðum í sólskini og huggulegheitum en svo þykknaði upp og hitinn fór niður í 14 gráður um það við renndum inn í Krakow. Á Park Inn hótelinu fengum við stæði fyrir hjólin í bílageymslu, alltaf tryggara að hafa þau innanhúss. Hótelið er svona korters rölt frá aðaltorgi bæjarins, handan árinnar Vislu og hentaði okkur að snæða miðdegissnarlið á þeirri leið. Eftir að hafa síðan farið aðeins um og skoðað markverð torg og byggingar þáðum við leiðsögn og akstur með golfbíl um bæði gamla gyðingahverfið annars vegar og gettóið hins vegar, þar sem gyðingum var safnað saman og umgirt fyrst með gaddavír og síðan með múr.

Hverfið þar sem gyðingarnir bjuggu fyrir stríð var lengi í niðurníðslu, en er í dag orðið afar hipp og kúl. Þar eru margar sýnagógur og eitt af þekktari nöfnum héðan er ekkert minna en snyrtivörudrottningin Helena Rubinstein, var m.a. farið með okkur að húsinu sem hún ólst upp í. Það jók mjög á hróður hverfisins að Spielberg tók mörg skot í mynd sína „Schindlers list“ í þessu hverfi. Í skoðunarferð okkar komum við einnig að húsinu sem hýsti verksmiðju Oskars Schindlers.

Eitt stærsta borgartorg í Evrópu frá 13. öld

Fyrst og fremst er Krakow afar falleg borg með torg sín, kirkjur, slot og hallir. Áhugaverður og fræðandi eftirmiðdagur í sarpinn. Eknir 236 km